Gerði símaat í forsætisráðherra

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands fattaði fljótlega að símtalið var gabb.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands fattaði fljótlega að símtalið var gabb. AFP

Öryggisráðstafanir á skrifstofu forsætisráðherra Bretlands við Downing stræti verða endurmetnar eftir að maður sem þóttist vera yfirmaður bresku fjarskiptaleyniþjónustunnar (GCHQ) fékk samband við beina línu ráðherrans í gær.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, talaði við manninn sem þóttist vera Robert Hannigan, yfirmaður GCHQ. Cameron sleit þó símtalinu þegar hann áttaði sig á því að símtalið væri gabb. 

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofunni komst gabbarinn ekki yfir mikilvægar upplýsingar í símtalinu og hefur því verið lýst sem „nokkuð stuttu“.

Í aðskildu atviki, náði maður að hringja í GCHQ og fá farsímanúmer hjá Hannigan sjálfum. Talskona ríkisstjórnarinnar sagði að í kjölfarið hafi allar deildir ríkisstjórnarinnar verið beðnar um að passa sig á þessháttar símtölum. 

Samkvæmt frétt Sky er ekki vitað hvort að sami maðurinn beri ábyrgð á símtölunum tveimur. 

Maður sem segist bera ábyrgð á símtalinu til GCHQ hefur þó lýst atvikinu í samtali við dagblaðið The Sun.

Sagðist hann hafa verið undir áhrifum eiturlyfja og áfengis og kallaði atvikið „bráðfyndið“.

„Ég gerði GCHQ að algjörum öpum. Ég er með farsímanúmerið hjá yfirmanninum,“ sagði hann. „Og að auk þess var ég undir áhrifum áfengis og kókaíns. Ég geri þetta klárlega aftur. Þetta var svo auðvelt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert