Hættulegasta krufning allra tíma

Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að …
Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að koma í ljós. mbl.is

Krufning á líki Alexanders Litvinenkos, KGB-njósn­ar­ans fyrr­ver­andi, er „sú hættulegasta sem framkvæmd hefur verið í hinum vestræna heimi“, segir meinafræðingurinn Nathaniel Cary. 

Cary sagði nefnd, sem rannsakar dauða Litvinenkos, að lík hans „hafi verið mjög hættulegt“ og því hafi það verið flutt á öruggt svæði til rannsóknar. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Litvinenko lést úr eitrun vegna geislavirks efnis á sjúkrahúsi í London árið 2006. Hann lést þremur vikum eftir að hafa drukkið te sem búið var að bæta efninu pólóníum út í.

Njósnarinn fyrrverandi hafði flúið til Bretlands og hóf þar að gagnrýna harðlega stjórnvöld í Rússlandi. Í Bretlandi vann hann fyrir bresku leyniþjónustuna MI6.

Meinafræðingurinn Cary vinnur fyrir breska innanríkisráðuneytið. Hann segir að hann og aðrir sem komu að krufningunni hafi verið í sérstökum hlífðarbúnaði, með hanska og hjálma sem súrefni hafði verið dælt inn í, meðan á krufningunni stóð.

Í frétt BBC segir að hann hafi sagt við rannsóknarnefndina: „Þessu hefur verið lýst sem hættulegustu krufningu sem nokkru sinni hefur verið gerð í hinum vestræna heimi og ég tel það rétt.“

Tveir menn eru enn eftirlýstir fyrir að hafa byrlað Litvinenko eitur. Þeir eru rússneskir og heita Andrei Lugovoi og Dmitry Kovtun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert