Jórdanar samþykkja fangaskiptin

Hér má sjá mynd sem samtökin birtu af jórdanska flugmanninum …
Hér má sjá mynd sem samtökin birtu af jórdanska flugmanninum í haldi hryðjuverkamanna. AFP

Upplýsingaráðherra Jórdaníu hefur staðfest að stjórnvöld þar í landi séu tilbúin til þess að láta íraskan fanga lausan í skiptum við jórdanskan flugmann sem er í haldi Ríkis íslams.

Sky News greinir frá þessu.

Ráðherrann, Mohammad al Momani, greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi í dag. „Jórdanía er tilbúin til þess sleppa fanganum Sajida al Rishawi ef jórdanska flugmanninum Muath al Kasaesbeh verði sleppt og lífi hans þyrmt,“ sagði Momani í ávarpinu.

al Rishawi situr nú á dauðadeild í fangelsi í Jórdaníu fyrir aðild sína að sprengjuárás sem kostaði 60 manns lífið. Hún er meðlimur í al-Qaeda.

Faðir flugmannsins, Safi al Kaseasbeh, hefur áður beðið jórdönsk stjórnvöld um að fylgja kröfum samtakanna. Hann hefur verið í haldi síðan á aðfangadag. 

Sagði faðir hans að öryggi Muath þýddi stöðugleika í landinu en dauði hans myndi skapa glundroða. 

Hafa yfirvöld greint frá því að samningaviðræður við Ríki íslams standi nú yfir í gegnum trúarleiðtoga í Írak. 

Muath al Kasaesbeh er í haldi ásamt Japananum Kenji Goto. Í myndbandi sem gefið var út af samtökunum í gær var þeim hótað lífláti innan sólarhrings. Ekkert var minnst á Goto í ávarpinu en japönsk stjórnvöld hafa sagst vera að vinna að frelsun fanganna ásamt Jórdaníu. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert