Afbrigðileg kúariða í Noregi

AFP

Nýlega greindist kýr í Noregi með afbrigðilega gerð kúariðu. Þessi gerð er mjög sjaldgæf og er ekki talin smitandi, hvorki milli dýra né í fólk. Ísland er í hópi landa sem Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunin hefur viðurkennt sem kúariðulaust land.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. 

Þar segir, að afbrigðileg gerð kúariðu hafi greinst í mörgum löndum, m.a. eitt tilfelli í Svíþjóð árið 2006 og nú í Noregi. Þessi gerð sé þó mjög sjaldgæf, aðeins um eitt tilfelli greinist í hverri milljón sýna. Talið er að þessi gerð kúariðu sé vegna breytinga sem gerast af sjálfu sér á próteinum í heilanum í gömlum gripum. Kýrin sem um ræðir í Noregi var 15 ára, sem er nokkuð hár aldur. Í Evrópu og víða annars staðar í heiminum eru umfangsmiklar reglubundnar sýnatökur á sláturhúsum vegna kúariðu. Tilfellið í Noregi fannst við rannsókn á sýnum sem tekin voru samkvæmt lögbundinni eftirlitsáætlun.

Kúariðufaraldur vegna hefðbundinnar gerðar kúariðusmitefnisins kom upp í Englandi 1986. Hann var rakinn til fóðrunar nautgripa með óhitameðhöndluðu kjöt- og beinamjöli. Fjölmörg tilfelli af hefðbundinni kúariðu hafa greinst í heiminum síðan þá en tíðni greininga er mjög á niðurleið, að því er segir á vef Matvælastofnunar.

„Ísland er í hópi landa í heiminum sem Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunin (OIE) hefur viðurkennt sem kúariðulaust land. Stofnunin veitti þessa viðurkenningu eftir umfangsmikið mat á líkum á að kúariðan sé til staðar í landinu. Matið byggir á ýmsum sögulegum gögnum og niðurstöðum úr eftirliti. Það sem vegur þyngst í mati á Íslandi hvað þetta varðar, eru þær ströngu reglur sem gilda um innflutning, m.a. að innflutningur á lifandi nautgripum er óheimill og að ávallt hefur verið bannað að nota kjöt og beinamjöl sem fóður fyrir nautgripi. Mikils er um vert að viðhalda þessari góðu stöðu. Liður í því er að bændur tilkynni dýralæknum um nautgripi með einkenni frá taugakerfinu, t.d. óstöðugleika, krampa eða lömun, og jafnframt um gripi sem drepast eða þarf að lóga vegna slysfara eða veikinda af ókunnum ástæðum. Nauðsynlegt er fyrir Ísland að geta lagt fram niðurstöður rannsókna á sýnum úr slíkum gripum við endurmat OIE á stöðu landsins hvað kúariðu varðar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert