Hljómsveitarstjóri lést á tónleikum

Fílharmóníusveit Vínarborgar. Mynd úr safni.
Fílharmóníusveit Vínarborgar. Mynd úr safni. AFP

Þekktur ísraelskur hljómsveitarstjóri lést á miðjum tónleikum í Sviss í gærkvöldi. Maðurinn hét Israel Yinon og var að stjórna verkinu Eine Alpensinfonie eða Alpasinfóníunni eftir þýska tónskáldið Richard Strauss er hann hneig niður og lést.

Dánarorsök Yinons er ekki vituð að svo stöddu. Hann var 59 ára gamall og fæddist í Kfar Saba í Ísrael. Hann starfaði sem gestahljómsveitarstjóri með fjölmörgum hljómsveitum, þar á meðal sinfóníusveit breska ríkisútvarpsins, sinfóníuhljómsveit Jerúsalem og konunglegu fílharmóníusveitinni í Lundúnum.

Þá má geta þess að Yinon var á Íslandi skömmu fyrir síðustu jól og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu við góðar undirtektir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert