Óútskýrð sprenging í Damaskus

Damaskus hefur hingað til sloppið tiltölulega ósködduð frá þeim átökum …
Damaskus hefur hingað til sloppið tiltölulega ósködduð frá þeim átökum sem einkennt hafa Sýrland síðustu fjögur ár. EPA

Að minnsta kosti sjö létu lífið þegar sprenging varð í rútu í miðbæ Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, í dag. Var rútan að ferja líbanska sjía-pílagríma sem voru að skoða borgina og var rútan með líbanskar númeraplötur.

Ekki er enn vitað hvað olli sprengingunni. Ríkissjónvarp Sýrlands hefur sýnt upptökur þar sem hermenn sjást leita í rústum rútunnar. Fremri helmingur hennar var að mestu sprengdur í burtu og var aðeins stálgrindin eftir.

Damaskus hefur hingað til sloppið tiltölulega vel frá þeim átökum sem einkennt hafa landið síðan óöldin hófst í mars árið 2011. Uppreisnarmenn hafa þó reglulega skotið eldflaugum inn í borgina frá nærliggjandi sveitum.

Þrátt fyrir það er vegurinn frá Líbanon til Damaskus ennþá nokkuð öruggur og líbanskir pílagrímar hafa haldið áfram að leggja leið sína til borgarinnar í þeim tilgangi að skoða þar ýmsa staði sem tengjast trú þeirra.

Meira en 200 þúsund manns hafa látið lífið í Sýrlandi síðan óöldin hófst og helmingur íbúa landsins hefur nauðbeygður þurft að flytjast búferlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert