Krefjast rannsóknar

Byggingin við Homan-torg.
Byggingin við Homan-torg. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið og Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago, eru undir miklum þrýstingi eftir að Guardian uppljóstraði um „Gestapo“-aðferðir sem lögregla borgarinnar ku hafa beitt í vöruhúsi við Homan-torg.

Stjórnmálamenn og mannréttindasamtök hafa brugðist ókvæða við fréttum blaðsins, þar sem lögmenn og aðgerðarsinni líkja vöruhúsinu við „svarta staði“ bandarísku leyniþjónustunnar í aðgerðum hennar gegn hryðjuverkum.

Guardian segir vöruhúsið hvergi að finna í opinberum gögnum, né séu haldnar skrár yfir þá sem þar er haldið, og því hafi hvorki lögmenn né ættingjar þeirra möguleika á að hafa uppi á þeim.

Emanuel, sem eitt sinn var hægri hönd Barack Obama, berst nú fyrir borgarstjórastólnum þar sem hann fékk ekki hreinan meirihluta atkvæða í fyrri umferð kosninganna. Kosningabaráttan hefur öðrum þræði snúist um háttsemi lögreglu borgarinnar.

Einn helsti stuðningsmaður Emanuel, þingmaðurinn Luis Gutiérrez, hefur nú kallað eftir frekari upplýsingum um starfsemina í vöruhúsinu við Homan-torg, en sagðist fyrst hafa haft spurnir af málinu með lestri Guardian.

Þingmaðurinn Danny Davis, sem er fulltrúi hverfisins þar sem vöruhúsið stendur, segir ásakanirnar sem fram hafa komið hryggilegar og segist myndu styðja rannsókn af hálfu dómsmálayfirvalda.

Guardian hefur m.a. sagt frá því að einstaklingum hafi verið haldið í vöruhúsinu klukkustundum saman, án þess að þeir hafi verið bókaðir né er þeim gefin kostur á að hafa samband við lögmann.

Uppljóstranir fjölmiðilsins virðast hafa komið embættismönnum Chicago-borgar á óvart, en borgarstjórinn hefur ítrekað neitað að svara fyrirspurnum Guardian um málið. Lögreglan hefur gefið út yfirlýsingu  um að farið sé að reglum í byggingunni við Homan-torg, en það samræmist engan veginn vitnisburði fjölda lögmanna sem Guardian hefur rætt við.

Amnesty International er meðal þeirra samtaka sem kallað hefur eftir rannsókn málsins, en í bréfi samtakanna til Emanuel segir m.a. að hann sé ábyrgur fyrir því að tryggja að mannréttindabrot séu ekki framin innan borgarmarkanna.

Önnur samtök hafa sömuleiðis kallað eftir rannsókn og hafa sjálf hafið könnun á málinu. Þeirra á meðal ein Chicago-deilda NAACP.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert