Verkfall hjá Norwegian og SAS

mbl.is/Þórður Arnar

700 flugmenn flugfélagsins Norwegian hyggjast leggja niður störf á miðnætti samkvæmt danska ríkisútvarpinu en nú hafa einnig stór hluti flugþjóna og -freyja flugfélagsins SAS lagt niður vinnu.

Stéttarfélag Norsku flugmannanna hefur átt í samningaviðræðum við Norwegian í þrjá mánuði um nýja kjarasamninga en nú lítur út fyrir að koma muni til verkfalls.

 Á heimasíðu Norwegian kemur fram að samningaviðræður standi nú yfir en að jafnvel þó svo að samningar takist ekki hyggist flugfélagið ekki fella niður nein flug vegna verkfallsins.

Samkvæmt Halvor Vatnar, talsmanni Flugstjórafélags Norwegian snýst verkfallið um að berjast fyrir ákveðnum grunngildum. Hann segir að Norwegian fastráði ekki nóg af flugmönnum og að gengið sé mjög á kjör þeirra enda vilji Norwegian losa sig við skandinavíska flugmenn og fá ódýrari, erlendan starfskraft.

Færa starfsfólk vegna kjarasamninga

Flugfreyjur og -þjónar SAS lögðu niður vinnu í morgun en starfsfólkið vill með aðgerðum sínum mótmæla því að flytja eigi um 150 samstarfsmenn þeirra yfir til dótturfélagsins Cimber. Starfsfólk Cimber býr við kjarasamninga sem eru talsvert verri en þeir sem SAS hefur gert við sitt starfsfólk og er flutningur starfskrafts hluti af sparnaðaráætlunum fyrirtækisins. Starfsfólk SAS vill tryggja að þeir sem verða fluttir til muni njóta sömu kjara og áður en enn hafa samningar ekki tekist. 

Samkvæmt danska ríkisútvarpinu hefur yfir 50 flugum verið aflýst í dag vegna verkfallsins taldi fréttamaður DR að um 300 manns stæðu í röð hjá SAS til að breyta miðunum sínum þegar hvað mest var. Ekki eru allir sem taka þátt í vinnustöðvuninni og fékk SAS lögreglunal að fjarlægja flugfreyjur og -þjóna af Kastrup flugvelli í dag þar sem þau reyndu að sannfæra samstarfsfólk sitt um að taka þátt í verkfallinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert