Bjarga björnum með áfengisvandamál

Skógarbjörn. Mynd úr safni.
Skógarbjörn. Mynd úr safni. Af vef Wikipedia

Tveir rússneskir birnir sem glíma við áfengisvandamál gætu brátt notið nýs lífs í Rúmeníu. Fyrir skömmu féll dómur í máli gegn eiganda bjarnanna þar sem honum er gert að afhenda birnina en hann hafði hýst þá í litlu búri fullu af rusli við veitingastað í Ólympíuborginni Sochi.

Birnirnir ánetjuðust áfengi eftir að gestir veitingastaðarins tóku upp á því að gefa þeim drykki, að því er segir í umfjöllun fréttastofunnar Tass. Dómurinn mun þó ekki taka gildi fyrr en í mars og því eru þeir enn í vörslu eiganda síns og munu auk þess þurfa vegabréf útgefin af yfirvöldum borgarinnar.

„Dómsúrskurðurinn er nú þegar til staðar en það er enginn annar staður til að taka við þeim í Sochi,“ segir Anna Kogan forstöðumaður Big Hearts Foundation, sem einblínir á dýraverndarmál í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna. Hún skipuleggur nú flutning bjarndýranna til Rúmeníu en þar hefur sérstakt athvarf fyrir birni boðist til að taka á móti þeim og veita þeim meðferð vegna fíknar sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert