Grunuð um að myrða 16 ára stúlku

Becky Watts.
Becky Watts.

Maður og kona hafa verið handtekin af lögregluyfirvöldum í Bretlandi, grunuð um að hafa rænt og myrt hina 16 ára gömlu Becky Watts, sem hefur verið saknað í 11 daga. Umfangsmikil leit hefur staðið yfir frá því að foreldrar stúlkunnar tilkynntu hvarf hennar.

Lögregla í Avon og Somerset handtók 28 ára karlmann og 21 árs konu um helgina vegna gruns um að þau hefðu rænt Watts. Í dag tilkynnti lögregla að þau væru jafnframt grunuð um að hafa myrt stúlkuna.

Watts sást síðast á heimli sínu í Crown Hill, St. George að morgni 19. febrúar. Hún fór að  heiman með farsíma sinn, fartölvu og spjaldtölvu, en lítið annað. Lögregla hefur gert ítarlega leit á svæðinu umhverfis heimili Watts, slætt nálæga tjörn og farið inn í þrjár byggingar.

Þá hefur hún óskað eftir upplýsingum um svarta bifreið af gerðinni Vauxhall Zafira.

Þrátt fyrir handtökurnar heldur leitin að Watts áfram. Fjölskylda hennar segist enn vonast til að endurheimta hana á lífi, en að hún sé búin undir hið versta.

Liðsafli frá fimm lögreglusveitum tekur þátt í leitinni, þyrlur og leitarhundar. Lögregla hefur ekki gefið upp frekari upplýsingar um handtökurnar eða hvað hún telur að hafi hent Becky Watts.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert