Skólinn of hættulegur

Frá Malmö
Frá Malmö EPA

Lögregla stendur vörð við Värner Rydén-menntaskólann í Malmö í dag en skólanum var lokað um helgina þar sem hann þykir of hættulegur fyrir nemendur og kennara vegna ofbeldis sem þar ríkir. 

Ákveðið var að loka skólanum um helgina eftir að Kennarasambandið lýsti því yfir að það væri of hættulegt fyrir kennara og nemendur að koma þangað vegna endurtekinna ofbeldisbrota og glæpa. Er þar meðal annars nefnt til sögunnar ofbeldi, hótanir og heimsóknir atvinnuglæpamanna í skólann sem er í Rosengård-hverfinu í útjaðri borgarinnar.

Í fjögur til fimm ár hafa nemendur og kennarar þurft að þola síendurtekið ofbeldi og slagsmál og í meiriháttar óeirðum sem brutust út á föstudag fengu kennarar einfaldlega nóg og töldu of hættulegt að vera í skólanum.

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að ráða öryggisfyrirtæki til þess að gæta skólans og eins verða kennarar fræddir um öryggismál og fleira en vonast er til þess að hægt verði að hefja kennslu á nýjan leik í skólanum síðar í vikunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert