Banna slátrun nautgripa

Þessi kýr í Frakklandi væri eflaust til í að búa …
Þessi kýr í Frakklandi væri eflaust til í að búa í Maharashtra. AFP

Nú er hægt að lenda í fangelsi í fimm ár í indverska ríkinu Maharashtra fyrir að eiga og neyta nautakjöts og fyrir að slátra nautgrip. Bann á kjöti nautgripa er ekkert nýtt í Indlandi en mörg ríki landsins hafa bannað slátrun nautgripa sem eru heilög dýr í hindúatrú. En með því að senda fólk í fimm ára fangelsi fyrir neyslu nautakjöts ganga yfirvöld í Maharashtra skrefinu lengra. 

Hægt er að sleppa við fangelsisvistina með því að greiða sekt upp á 10.000 rúpíur eða rúmar 21.000 íslenskar krónur. Um 112 milljónir manna búa í ríkinu en höfuðborgin er Bombay. 

AFP-fréttaveitan segir frá þessu og vitnar í dagblaðið The Indian Express. Þar kemur fram að lögin hafi verið tekin í gildi eftir að forseti landsins, Pranab Mukherjee, samþykkti þau. Tveir áratugir eru þó síðan lögin fóru í gegnum þingið fyrst. 

Með nýju lögunum er slátrun nautgripa gerð ólögleg en hún hefur hingað til verið lögleg með samþykki dýralæknis.

Hægrisinnaðir trúarhópar í Indlandi hafa lengi heimtað algjört bann í landinu við slátrun allra nautgripa vegna trúarlegra ástæðna. Flestir sem kaupa og neyta nautakjöts í landinu eru múslímar, en það er stærsti minnihlutahópur landsins. Um 13% Indverja eru múslímar. 

Maður í Maharashtra bíður fyrir framan styttu af hindúguðinum Shiva …
Maður í Maharashtra bíður fyrir framan styttu af hindúguðinum Shiva í síðasta mánuði. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert