Faldi kjól Lewinsky í málverki af Clinton

Þessi mynd er tekin í apríl árið 2006 og sést …
Þessi mynd er tekin í apríl árið 2006 og sést Clinton hér horfa á málverk af sér og eiginkonu sinni, Hillary. Í málverkinu af honum fellur skuggi af kjól á arinhilluna bak við hann. Kjólinn er tilvísun í framhjáhald forsetans. AFP

Listamaðurinn sem málaði málverk af Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fyrir America's National Portrait Gallery hafði skugga af kjól í verkinu. Skugginn var tilvísun í framhjáhald Clintons með Monicu Lewinsky.

Listamaðurinn Nelson Shanks sagði sjálfur frá þessu í viðtali við Philadelphia Daily News. „Staðreyndin er sú að hann er líklega þekktasti lygari sögunnar. Hann og hans ríkisstjórn gerðu marga góða hluti auðvitað en ég gat aldrei hætt að hugsa um þetta mál með Monicu og því er tilvísun í það í málverkinu.“

Skugginn fellur á arinhillu við hlið Clintons á málverkinu. „Þetta er bókstaflega skuggi af bláum kjól sem ég var með á gínu í herberginu þegar ég var að mála verkið, en þá var forsetinn ekki inni í herberginu,“ segir Shanks.

Clinton var forseti Bandaríkjanna á árunum 1993-2001. Eiginkona hans, Hillary Clinton, var utanríkisráðherra um tíma og er nú sögð ætla að sækjast sjálf eftir forsetakjöri.

Lewinsky var lærlingur í Hvíta húsinu. Þau Clinton áttu í leynilegu ástarsambandi og neitaði Clinton staðfastlega í viðtölum að hafa átt í sambandi við hana. Hann játaði síðar og sagði að sambandið hefði ekki verið „viðeigandi“ og hefði verið „rangt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert