Hjuggu af hönd meints þjófs

Liðsmenn Ríkis íslams í Raqqa.
Liðsmenn Ríkis íslams í Raqqa. AFP

Liðsmenn Ríkis íslams hjuggu af hönd manns eftir að þeir sökuðu hann um að hafa stolið mótorhjóli. Hópur sýrlenskra aðgerðarsinna sem kallar sig RBSS (Raqqa is Being slaughtered Silently eða Verið er að slátra Raqqa hljóðlega) heldur þessu fram.

Í yfirlýsingu hópsins kemur fram að hönd mannsins hafi verið höggvin af fyrir framan hóp fólks í Raqqa, en þar eru meginstöðvar Ríkis íslams í Sýrlandi. 

Aðgerðarsinninn Abu Mohammed Hussam sagði í samtali við The Independent að aflimunin hefði átt sér stað 26. febrúar. Fórnarlambið væri 27 ára gamalt.

„Hermenn Ríkis íslams komu og tilkynntu að þetta væri þjófurinn og að hönd hans yrði höggvin af. Þá var bundið fyrir augu hans og höndin tekin af í einu höggi. Eftir það var læknir látinn sjá um manninn,“ sagði Hussam og bætti við að maðurinn hefði lifað af.

Hann sagði jafnframt að refsingar Ríkis íslams færu fram á mismunandi stöðum en ávallt opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert