Kanadísks prests saknað í N-Kóreu

Ekkert hefur spurst til prestsins síðan í lok janúar á …
Ekkert hefur spurst til prestsins síðan í lok janúar á þessu ári. Mynd tengist fréttinni ekki með beinum hætti. EPA

Ekki hefur spurst til kanadísks prests sem ferðaðist til Norður-Kóreu síðan 31. janúar síðastliðinn. Hinn 60 ára gamli Heyeon Soo Lim fór til Norður-Kóreu í mannúðlegum tilgangi sem hann hefur gert í yfir hundrað skipti, sagði Lisa Park, talsmaður kirkjunnar hans, sem er í Mississauga, Ontario.

Hópur á vegum kirkjunnar ferðaðist til N-Kóreu hinn 30. janúar og var Lim þar á meðal. Lim átti að snúa til baka 4. febrúar úr ferðinni sem hefur verið lýst sem „hefðbundinni ferð“ til Rajin í norðausturhluta landsins, þar sem kirkjan styrkir barnaheimili, munaðarleysingjahæli og hjúkrunarheimili, samkvæmt upplýsingum frá Light Korean Presbyterian-kirkjunni en fréttaveitan CNN greinir frá málinu.

Kirkjan hefur formlega óskað eftir hjálp frá utanríkisráðuneyti Kanada við leitina að Lim og einnig frá sænska sendiráðinu í Pyongyang, sem útvegar bandarískum, kanadískum og áströlskum ríkisborgurum hjálp í landinu en löndin þrjú eiga ekki í diplómatísku sambandi við N-Kóreu.

Ebóla hefur áhrif á ferðalög til Norður-Kóreu

Eftir að ekkert hafði spurst til Lim sagði Pak að talið væri að hann hefði lent í nýrri stefnu N-Kóreu varðandi ebólusmit. Kirkjan og fjölskylda Lim biðu í 21 dag, sem er sá tími sem hann hefði getað verið í sóttkví, en ekkert gerðist.

Í október tilkynntu yfirvöld í Norður-Kóreu að gripið yrði til „fyrirbyggjandi aðgerða“ til að „stjórna smithættu af völdum ebólu“. Ferðaþjónustuaðilar sem skipuleggja ferðir til landsins greindu frá því í vikunni að Norður-Kórea gæti verið að létta á stefnu sinni varðandi ebólu.

„Það er okkur ánægja að tilkynna að eftir fjóra mánuði er ferðaþjónustan í Norður-Kóreu loks að verða eðlileg að nýju,“ sagði Nick Bonner hjá Koryo Tour í samtali við CNN í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert