Takmarka aðgang syrgjenda

AFP

Rússnesk yfirvöld hafa ákveðið að takmarka fjölda þeirra sem fá að mæta í útför stjórnarandstæðingsins Boris Nemtsovs í Moskvu í dag. Samkvæmt BBC hefur pólskum stjórnmálamanni verið synjað um vegabréfsáritun og eins var Evrópuþingmanni frá Lettlandi snúið við er hann lenti á flugvellinum í Moskvu.

Leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, Alexei Navalní, var neitað um að fá að yfirgefa fangelsið til þess að vera viðstaddur en hann afplánar nú fimmtán daga dóm.

Útförin fer fram síðdegis og verður Nemtsov jarðsettur í sama kirkjugarði og Anna Polítkovskaja hvílir í en hún var myrt árið 2006.

Nemtsov, sem var harður gagnrýnandi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, var skotinn til bana á brú skammt frá Kreml á föstudagskvöldið.

Nýtt myndskeið úr öryggismyndavél hefur verið birt þar sem flóttabíll morðingjanna sést aka um götur Moskvu á miklum hraða.

Vinir og stuðningsmenn Nemtsovs eru byrjaðir að safnast saman til þess að færa honum sína hinstu kveðju. Nokkrir fréttaskýrendur hafa sagt að ólíklegt sé að ráðamennirnir í Kreml hafi fyrirskipað morðið á Nemtsov. Þeir segja að Pútín hafi stafað lítil hætta af Nemtsov sem naut minni stuðnings meðal almennings en stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexej Navalní.
Talið er líklegra að öfgamenn úr röðum rússneskra þjóðernissinna hafi staðið fyrir morðinu vegna gagnrýni Nemtsovs á stuðning Rússa við aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu. Nemstov var skotinn fjórum skotum í bakið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert