Hefur Cameron stigið feilspor?

Nick Clegg hefur sagt að sé Cameron of upptekinn til …
Nick Clegg hefur sagt að sé Cameron of upptekinn til að mæta Ed Miliband, sé hann sjálfur reiðubúinn til þess. AFP

Pólitískir andstæðingar David Cameron hafa sakað forsætisráðherrann breska um kjarkleysi, eftir að almannatengill ráðherrans, Craig Oliver, tilkynnti að Cameron myndi aðeins taka þátt í einum leiðtogakappræðum fyrir þingkosningarnar í maí.

Fyrirkomulag kappræðanna hefur verið þrætuepli síðustu vikur og mánuði, en menn hafa m.a. deilt um fjölda kappræða og fjölda þátttakenda hverju sinni.

Sjónvarpsstöðvarnar fjórar sem hafa unnið saman að því að koma með tillögur að fyrirkomulaginu lögðu upphaflega til að kappræðurnar yrðu þrjár, og að þátttakendunum myndi fækka eftir fylgi í skoðanakönnunum. Stöðvarnar eru BBC, ITV, Channel 4 og Sky News.

Tillögurnar voru hins vegar umdeildar og nú hreykir Cameron sér af því að hafa höggvið á hnútinn með því að leggja til einar sjö leiðtoga kappræður, sem myndu eiga sér staði í vikunni eftir 23. mars, áður en þingið lýkur störfum 30. mars.

Þetta gengur þvert á fyrri yfirlýsingar forsætisráðherrans, sem hafði talað fyrir einvígi milli sín og Miliband. Miliband segir ráðherrann nú reyna allt til að komast hjá kappræðum við sig, og hefur komið sér í nokkuð sterka stöðu með því að segjast reiðubúinn til að etja kappi við Cameron hvenær og hvar sem er.

Forsætisráðherrann hefur sagt að eftir allar tafirnar sé skammur tími til stefnu, en hann vill ljúka kappræðum áður en kosningabaráttan hefst fyrir alvöru að loknu þingi. Gagnrýnendur benda hins vegar á að stefnuskrár flokkana muni ekki liggja fyrir fyrir þann tíma.

Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt forsætisráðherrann og sagt að sé Cameron of upptekinn eða „mikilvægur“ til að verja verk ríkisstjórnarinnar, sé hann sjálfur reiðubúinn til að mæta Miliband.

Sjónvarpsstöðvarnar fjórar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær ýja að því að þær séu tilbúnar til að halda fleiri kappræður en Downing stræti hefur lagt til. Því er mögulegt að afarkostir Cameron komi á endanum í bakið á honum, ef efnt verður til kappræða án þátttöku hans.

Miliband segist tilbúinn til að mæta Cameron hvar og hvenær …
Miliband segist tilbúinn til að mæta Cameron hvar og hvenær sem er. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert