Dreymdi um að fljúga

Þessi mynd ku sýna Andreas Lubitz við Golden Gate-brúna í …
Þessi mynd ku sýna Andreas Lubitz við Golden Gate-brúna í Kaliforníu. AFP

Erlendir fjölmiðlar hafa greint frá því að Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem var við stýrið þegar vél Germanwings brotlenti í frönsku Ölpunum, hafi í eina tíð þjáðst af þunglyndi en vinir og kunningjar lýsa honum sem vinalegum og glöðum.

Lubitz hóf störf sem flugmaður hjá Germanwings í september 2013, en hafði áður hlotið þjálfun hjá Lufthansa í Bremen. Alls hafði hann flogið 630 tíma.

Samkvæmt Carsten Spohr, framkvæmdastjóra Lufthansa, stóðs Lubitz öll sálræn próf sem þjálfun hans krafðist og þá gekkst hann reglulega undir líkamlegt eftirlit. Spohr sagði á blaðamannafundi í dag að flugmaðurinn hefði hafið þjálfun 2008 og fyrst starfað sem flugþjónn. Ekkert óvenjulegt hefði komið fram við þjálfun hans.

Spohr sagði um að ræða hræðilegasta atburð í sögu félagsins.

Fregnir herma að öndun Lubitz hefði verið regluleg á sama tíma og flugstjórinn og áhöfn vélarinnar lömdu á dyrnar að stjórnklefanum áður en vélin brotlenti. Þær voru læstar.

Félagar í flugklúbbnum Luftsportclub Westerwald, sem Lubitz tilheyrði frá unglingsaldri, segja að það hafi verið draumur hans að fljúga. „Andreas varð meðlimur í félaginu og langað að láta draum sinn um að fljúga rætast,“ segir m.a. í yfirlýsingu á vef félagsins.

Peter Ruecker, félagi í klúbbnum til margra ára, fylgdist með flugnámi Lubitz og segir að vel hafi legið á honum þegar hann heimsótti félagið síðasta haust. „Hann var ánægður að hafa starf hjá Germanwings og farnaðist vel. Hann var mjög glaður. Hann gaf frá sér góða strauma,“ sagði Ruecker við Associated Press.

Ruecker segir að Lubitz hafi verið hlédrægur en vinalegur þegar hann gekk í flugklúbbinn 14 eða 15 ára gamall.

Nágrannar foreldra Lubitz hafa lýst honum sem vinalegum manni sem elti drauma sína með ákefð. Einn sagði að hann hefði haldið sér í formi með því að fara út að hlaupa. Útvarpsstöðin RTL hefur eftir íbúa bæjarins Montabaur í Rhineland-Palatinate, að Lubitz hafi verið „algjörlega eðlilegur“.

„Hann var mjög glaður með starfið sitt. Hann var ánægður og glaður. Hann hafði uppfyllt draum sinn að verða atvinnuflugmaður eftir að hafa verið áhugamaður. Hann átti ekki við nein vandamál að stríða. Ég hefði ekki haldið að hann gæti gert svona nokkuð.“

Talið er að Lubitz hafi hlotið einhverja þjálfun sem flugmaður í Phoenix í Bandaríkjunum, en Goodyear-flugvöllurinn í borginni var eitt af „áhugamálum“ hans samkvæmt Facebook-síðu sem nú hefur verið eytt. Á síðunni var hlekkur á niðurstöður í hálfmaraþoni Lufthansa í Frankfurt 2011, þar sem hlaupari sem kallaði sig flying_andy var skráður með niðurstöðurnar 1 klukkustund 48 mínútur 51 sekúnda.

Sjá umfjöllun Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert