„Ég fann jörðina hristast“

Mikinn Reyk leggur yfir New York.
Mikinn Reyk leggur yfir New York. AFP

Mikill eldur logar í tveimur íbúðarbyggingum í New York eftir að önnur þeirra féll saman við sprengingu. Ekki er vitað hvers vegna sprengingin varð en talið er hún gæti hafa orsakast af gasleka.

Vitni í kring lýsa mikilli ringulreið og segir blaðamaður The New York Times blóðslettur liggja þvert yfir og eftir götunni við húsin. Eitt vitni lýsti því fyrir blaðamanni að hann hefði séð konu fasta í brunastiga eftir að hafa klifrað út úr íbúðinni sinni. Hún var föst á annarri hæð og þorði ekki lengra niður svo vegfarandi af götunni hoppaði upp í stigann og hjálpaði henni niður á gangstéttina.

Kl. 15:59 að staðartíma heyrðist hávært skruðningur og neðri hluti framhliðar annarrar byggingarinnar hóf að hreyfast. Augnabliki síðar rann hún rólega niður á gangstéttina í haug af gleri og lausum múrsteinum. New York Times segir þungan gráan reyk hafa fyllt loftið og fáeinum augnablikum síðar var ljóst að enginn hluti byggingarinnar stóð enn uppi.

Annað vitni sem The New York Times ræddi við sagðist hafa hoppað upp úr stólnum sínum þegar sprengingin hristi íbúð hans.

Vitnið, Jordy Trachenberg, sagðist hafa haldið að sprengingin hefði verið í húsinu sínu. „Ég fann jörðina hristast undir mér, svo fór allt þetta brak – gifs og gler að skella á gluggunum mínum,“ sagði maðurinn.

„Ég hljóp út úr byggingunni minni þegar ég sá logana stíga upp og íbúðin mín fylltist af reyk. Ég gat ekki andað.“

Frétt mbl.is: Eldhaf í New York

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert