Tveggja manna enn saknað

Frá eldsvoðanum á fimmtudag.
Frá eldsvoðanum á fimmtudag. AFP

Tveggja manna er enn saknað eftir elds­voðann mikla sem varð á Man­hatt­an í New York á fimmtudag. Mik­il gasspreng­ing varð og olli eldurinn því að þrjár bygg­ing­ar hrundu. Tuttugu og tveir slösuðust, þar af þrír mjög al­var­lega.

Notast var við leitarhunda í dag, í von um að finna mennina tvo. Voru þeir á veitingastað á neðstu hæð eins hússins þegar sprengingin varð. Annar maðurinn, 26 ára gamli Moises Lucon, vann á veitingastaðnum, en hinn maðurinn, 23 ára gamli Nicholas Figueroa hafði verið þar á stefnumóti.

Fjölskyldur þeirra hafa tekið þátt í leitinni og hafa myndir af þeim verið hengdar upp um alla borgina. „Við erum svo uppgefin og í miklu uppnámi. Ég veit ekki hvað kom fyrir hann,“ sagði Zacarias Lucon, bróðir Moises í samtali við Daily News of New York. Lucon flutti til New York frá Guatemala fyrir sex árum síðan.

Ættingjar Figueroa sögðust enn halda í vonina. „Bróðir minn er sterkur,“ sagði bróðir hans, Neal Figueroa. „Jafnvel þó hann sé enn inni í rústunum þá veit ég að hann er að reyna að koma sér út, og ég er að biðja fyrir því.“

Sérfræðingar telja þó litlar líkur á því að einhverjir séu enn á lífi inni í rústunum.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, heimsótti slökkviliðið í borginni í dag til að þakka fyrir vel unnin störf í eldsvoðanum. Mikill viðbúnaður hefur ríkt í borginni, en í dag gátu íbúar í nærliggjandi húsum snúið til baka heim til sín.

Eldsvoðinn er nú rannsakaður, en að sögn borgarstjórans er út­lit fyr­ir að fram­kvæmd­ir við pípu- og ga­s­lagn­ir húss­ins hafi valdið spreng­ing­unni. 

Slökkviliðsmenn við störf eftir sprenginguna.
Slökkviliðsmenn við störf eftir sprenginguna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert