Útgöngubann í Sierra Leone

Útgöngubann tók gildi í Sierra Leone í gær. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt bann gildir í öllu landinu, en markmiðið er að hefta frekari útbreiðslu ebólu-veirunnar í landinu.

Öllum íbúum landsins er gert að halda sig heima næsta tvo daga, fram á mánudag. Trúræknir múslimar fá þó leyfi til að ganga til bæna á morgun og það sama gildir um kristna menn, sem fá útvistarleyfi til kirkjusóknar.

Ebólu-faraldurinn geisar enn í landinu og koma upp tugir nýrra tilfella í hverri viku í landinu sem og öðrum Afríkjuríkjum á borð við Líberíu og Gíneu. Á undanförnum tólf mánuðum hafa um það bil tíu þúsund manns látist af völdum veirunnar í þessum þremur ríkjum.

Hins vegar hefur mjög dregið úr ebólu-tilfellum í þessum ríkjum að undanförnu og vonast stjórnvöld til að útgöngubannið muni stemma enn frekar stigu við útbreiðslu veirunnar. Í síðustu viku greindust aðeins 33 ný tilfelli í Sierra Leone og hafa þau ekki verið færri frá því í júnímánuði í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert