Von á fyrstu tölum á morgun

Ungir menn dansa fyri framan pappaspjald af andliti forsetaframbjóðandans Muhammadu …
Ungir menn dansa fyri framan pappaspjald af andliti forsetaframbjóðandans Muhammadu Buhari í Kaduna í Nígeríu í dag. AFP

Von er á fyrstu tölum úr forsetakosningum sem fram fóru um helgina í Nígeríu á mánudaginn. Sagði kjörnefnd frá þessu í dag. Áttu kosningunum að ljúka í gær en vegna tæknilegra vandamála þurftu kjörstaðir á ákveðnum stöðum að vera opnir í dag. 

„Vonandi getum við tilkynnt um tölur innan 48 klukkustunda og vonandi fyrr,“ sagði Attahiru Jega, yfirmaður nefndarinnar í gær. 

Var því síðar lýst yfir að byrjaði yrði að safna saman úrslitum úr ríkjum landsins á miðnætti í kvöld. Voru helstu erfiðleikar við kosningarnar tengdar við fingrafaraskanna sem notaður var til þess að skrá kjósendur. Virkaði skanninn sumstaðar illa eða ekki og var til dæmis forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan 50 mínútur að reyna að skrá sig með skannanum. 

Samkvæmt Jega seinkaði kosningum verulega á 348 kjörstöðum í landinu. Forseti landsins, Goodluck Jonathan vonast eftir öðru kjörtímabili í embætti en mótframbjóðandi hans, Mohammadu Buhari hefur gert honum erfitt fyrir. Er búist við því að lítill munur verði á kjöri frambjóðendanna. 

Hafa fylkingar frambjóðendanna skipst á að ásaka hvor aðra um að svindla í kosningunum. Sagði Jega að nefndinni hafi borist tilkynningar um meint kosningasvindl á sumum stöðum. Hafa fylkingarnar m.a. áskaðað hvor aðra um að nota börn til þess að hala inn atkvæðum. 

Hefur nefndin fengið beiðnir þess efnis að aftur verði kosið í fylkinu Rivers í suðurhluta landsins vegna mögulegs svindls. 

Á blaðamannafundi sagði Jega að allar tilkynningar verði rannsakaðar en að nefndin væri viss um að um helgina hafi farið fram „frjálsar, sanngjarnar, trúverðugar og friðsamar,“ kosningar. 

Aðspurður um fingrafaraskannanna sagði hann að af 150 þúsund skönnum sem hafa verið í notkun í dag og í gær virkuðu 374 þeirra ekki. Sagði hann að því bæri að hrósa. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert