Íran í brennidepli í Lausanne

Ráðherrar sex landa, Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Bretlands, Rússlands og Kína, munu í dag funda með fulltrúum Írans um kjarnorkuáætlun þess síðastnefnda. 

Það er utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, sem leiðir viðræðurnar en er nú jafnvel talið að hægt verði að ljúka meira en áratuga langri deilu vesturveldanna við Íran.

Svo virðist sem samkomulag sé að nást um að tryggt sé að Íranar geti ekki framleitt kjarnorku vopn en eitthvað virðist skorta á samkomulag á pólitísku hliðinni. 

„Við erum hér því við trúum því að hægt sé að ná samkomulagi,“ segir Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, en hann ræddi við fréttamenn við komuna til Lausanne í Sviss seint í gærkvöldi. Hann var fyrstur utanríkisráðherra ríkjanna sex til að mæta á fundinn. Hann segir að samkomulagið útiloki það að írönsk yfirvöld geti framleitt kjarnorkusprengju.

Vonir standa til þess að hægt verði að rita undir samkomulag á morgun en enn á eftir að ná samkomulagi um hvernig refsiaðgerðum á Íran verði aflétt og hvernig kjarnorkurannsóknum þeirra og þróun verði háttað síðar meir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert