Rannsaka morðið á móðurinni að nýju

Nasreen Akhtar var 29 ára er hún var myrt.
Nasreen Akhtar var 29 ára er hún var myrt.

Lögreglan hefur ákveðið að hefja að nýju rannsókn ná morði í Oxford fyrir tuttugu árum. Þá var fjögurra barna móðir drepin og fundu tvö börn hennar líkið.

Nasreen Akhtar var 29 ára. Hún var myrt í mars árið 1995. Tvö ung börn hennar fundu líkið er þau komu  heim úr skólanum. Hún hafði verið kyrkt.

Eiginmaður hennar, Hakim Khan, var ákærður fyrir morðið en hann var síðar sýknaður.

Lögreglan í THames Valley vonast til þess að þeir sem hafi átt erfitt með að tala við lögregluna um málið á sínum tíma eigi auðveldara með að gera það í dag.

Akhtar hafði fylgt börnum sínum í skólann um morguninn og farið svo og heimsótt vin á leiðinni heim. Sorphirðumenn tóku eftir því að útidyrahurðin á heimili hennar stóð opin þennan morguninn er þeir áttu leið þar um. Tvö börn hennar, átta og níu ára, snéru heim úr skólanum síðdegis og fundu móður sína látna á stofugólfinu.

Myndbandsupptökuvél var það eina sem var saknað úr húsinu. 

Sonur Akhtar sem var tíu ára er morðið var framið, segir að málið hafi „splundrað“ fjölskyldunni.

Hann segir í samtali við BBC: „Morðinginn hélt bara áfram með sitt líf. Honum eða þeim hefur ekki verið refsað fyrir þennan hræðilega glæp og áhrif málsins á fjögur ung börn voru óásættanleg.“

Lögreglan í Thames Valley segir að þrátt fyrir ítarlega rannsókn hafi hún ekki skilað neinu á sínum tíma. Hún segir að nú verði málið endurupptekið og hefur óskað eftir ábendingum frá almenningi vegna þess.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert