Buhari forseti Nígeríu

Buhari sigraði í kosningunum, en á tímabili var afar mjótt …
Buhari sigraði í kosningunum, en á tímabili var afar mjótt á munum milli frambjóðendanna. AFP

Mikil fjöldi fólks fagnaði á götum Kano í norðurhluta Nígeríu í dag, eftir að Muhammadu Buhari, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, lýsti yfir sigri í forsetakosningunum. Buhari hlaut 89% allra atkvæða í Kano, næstfjölmennasta ríki landsins, í slagnum gegn Goodluck Jonathan, núverandi forseta.

Samkvæmt Guardian hefur Buhari hlotið 14,9 milljón atkvæði þegar úrslit liggja fyrir í 35 ríkjum af 36, en Jonathan 12,8 milljón atkvæði. Síðarnefndi hefur játað sig sigraðan.

Um er að ræða ótrúlega endurkomu Buhari en hann var einráður 1983-1985 eftir að herinn steypti þáverandi stjórn af stóli. „Við verðum að horfa á þetta sem sigur fyrir lýðræðið, breytingu til hins betra,“ sagði eiginkona Buhari, Aisha, á Twitter.

Þetta var fjórða framboð Buhari til forseta, en hann hefur notið góðs af því að íbúar Nígeríu eru langþreyttir á landlægri spillingu. Þá er stjórnarandstaðan öflugri en áður og ásakanir um að Jonathan hafi mistekist að taka á framsókn Boko Haram háværar.

Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa almennt gefið kosningunum jákvæða umsögn, þrátt fyrir tafir og tæknilega örðugleika við framkvæmd þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert