Hætta laukar að græta fólk?

Hugsanlega kann það að heyra sögunni til að fólk tárist á meðan það sker lauka en japanskt fyrirtæki segist hafa framleitt lauka sem kallar ekki fram þau viðbrögð. Vísindamenn þess segja að þeim hafi tekist að draga úr framleiðslu efnis í laukum sem leiði til þess að fólk tárist þegar þeir eru skornir í sundur.

Fram kemur í frétt AFP að fyrirtækið, House Foods Group, segir í fréttatilkynningu að fareindum hafi verið skotið á laukana sem hafi leitt il þess að dregið hafi verulega úr magni ákveðinna ensíma sem leiki meginhlutverk í framleiðslu efnisins. Haft er eftir talsmanni fyrirtækisins að engin ákvörðun hafi verið tekin um framleiðslu á slíkum laukum.

Ennfremur segir að vísindamenn House Foods Group hafi árið 2013 unnið Ig Nóbelsverðlaunin fyrir að uppgötva lífefnafræðilegar ástæður þess að laukar valdi því að fólk tárist. Verðlaunin eru veitt vegna fyndinna uppfinninga sem fúlasta alvara er þó að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert