Lyfjafræðingar taki ekki þátt í dauðarefsingum

Mótmæli gegn dauðarefsingum í Bandaríkjunum.
Mótmæli gegn dauðarefsingum í Bandaríkjunum. AFP

Ein helstu samtök lyfjafræðinga í Bandaríkjunum hafa hvatt félaga sína formlega til þess að sjá fangelsisyfirvöldum í landinu ekki fyrir lyfjum sem nota á til að framfylgja dauðarefsingum. Samtökin hafa ekki boðvald yfir meðlimum sínum en setja þeim siðareglur.

Samtök bandarískra lyfjafræðinga (American Pharmacists Association) samþykktu á ársþingi sínu í gær að standa gegn banvænum lyfjagjöfum. Það væri ekki hlutverk lyfjafræðinga að sem heilbrigðisstarfsmanna að veita slík lyf. Um 62.000 meðlimir eru í samtökunum. Samtök lækna í Bandaríkjunum hafa einnig siðareglur sem takmarkar getu meðlima til að taka þátt í að framfylgja dauðarefsingum.

Fangelsisyfirvöld í Bandaríkjunum sem nota lyfjagjöf til að taka fanga af lífi hafa undanfarið lent í basli með að verða sér út um lyf eftir að stórir framleiðendur byrjuðu að neita að selja þau í þeim tilgangi. Réði þrýstingur frá andstæðingum dauðarefsinga meðal annars þeirri afstöðu þeirra.

Yfirvöld hafa því í auknum mæli þurft að panta lyfin frá fyrirtækjum sem framleiða fyrir einstaka viðskiptavini. Nú er hins vegar einnig orðið erfitt að fá lyfin þannig þar sem að margir lyfjafræðingar eru tregir til að blandast inn í deilur um réttmæti dauðarefsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert