Stefnir í „algjört hrun“

Íbúar bíða í röðum eftir að taka bensín á farartæki …
Íbúar bíða í röðum eftir að taka bensín á farartæki sín í borginni Taez. AFP

Stjórnvöld í Sádi Arabaíu og Íran skiptust á skotum í dag vegna átakanna í Jemen, á meðan Sameinuðu þjóðirnar vöruðu við því að landið væri á barmi „algjörs hruns“. Hjálparsamtök vara við því að mannúðarástandið í landinu fari versnandi þar sem lokað hefur verið fyrir samgöngur í lofti og á sjó.

Sprengingar birtu upp himininn yfir borginni Sanaa í nótt, er herþotur á vegum Sádi Arabíu og bandamanna gerðu loftárásir gegn uppreisnarmönnum. Amnesty International sakaði bandalagið um að snúa blindu auga að dauðsföllum meðal almennra borgara, en samkvæmt samtökunum létust fjögur börn í árásum á Ibb.

Talsmaður bandalagsins sagði það ekki ætlun þess að drepa almenna borgara, jafnvel þótt uppreisnarmenn Huthi hefðu hörfað inn í þorp.

Samkvæmt UNICEF hafa 62 börn látið lífið og 30 særst í átökunum síðustu viku. „Börn þurfa nauðsynlega á vernd að halda og allir aðilar deilunnar ættu að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja öryggi barna,“ sagði talsmaður UNICEF.

Meðal skotmarka bandamanna í Sanaa voru vopnageymslur sérsveita hersins, sem eru hliðhollar Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseta. Einn íbúa Sanaa sagði í samtali við AFP að hann hefði aldrei upplifað aðra eins sprengjuárás og gerð var á borgina í nótt.

Í dag beindust loftárásirnar gegn búðum Huthi-liða og sérsveitarhermönnum í bænum Daleh, herstöð í borginni Taez í suðvesturhluta landsins og bækistöðvum uppreisnarmanna í Dhammar, suður af Sanaa.

Á jörði niðri hafa átök brotist út milli uppreisnarmanna og ættbálka, sjálfskipaðra varaliða og íbúa.

Læknar án landamæra segjast hafa tekið á móti fleiri en 550 sjúklingum í borginni Aden í suðurhluta landsins síðan 19. mars. Samtökin segja bráðnauðsynlegt að leitað verði leiða til að koma mannúðaraðstoð og mannskap inn í landið.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa að minnsta kosti 93 látið lífið og 365 slasast frá því á föstudag. Zeid Ra'ad Al Hussein, mannréttindastjóri SÞ, segir að svo virðist sem landið sé á barmi algjörs hruns.

Þá hefur hann fordæmt árásir bardagamanna tengdum Huthi á þrjá spítala í Daleh.

Utanríkisráðherra Sádi Arabíu, Saud al-Faisal, hefur sakað Huthi-liða og Saleh, í samvinnu við Íran, um að stuðla að óstöðugleika í landinu. „Við erum ekki stríðsæsingarmenn, en þegar þeir berja stríðstrumburnar, þá erum við reiðubúnir,“ sagði hann.

Stjórnvöld í Tehran segja hins vegar að ráðamenn í Sádi Arabíu hafi ákveðið að stofna Miðausturlöndum í hættu og vara við því að kvikni eldur á einum stað á svæðinu, verði það til þess að allir fara að leika sér að honum.

Sádi Arabía og bandamenn hafa heitið því að halda loftárásum áfram þar til Huthi-liðar binda enda á uppreisn sína gegn forsetanum Abedrabbo Mansour Hadi, sem hefur flúið til Sádi Arabíu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa flutt friðarfulltrúa sinn í Jemen til Jórdaníu og þá hefur Flugöryggisstofnun Evrópu ráðlagt flugfélögum að forðast lofthelgi Jemen.

Kona tekur þátt í mótmælum gegn árásum bandamanna í borginni …
Kona tekur þátt í mótmælum gegn árásum bandamanna í borginni Sanaa. AFP
Fólk virðir fyrir sér eyðilegginguna eftir loftárásir Sádi Araba nærri …
Fólk virðir fyrir sér eyðilegginguna eftir loftárásir Sádi Araba nærri flugvellinum í Sanaa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert