Tjón og mannfall í Evrópu

Fellibylurinn Niklas hefur valdið miklum skaða í Evrópu.
Fellibylurinn Niklas hefur valdið miklum skaða í Evrópu. AFP

Að minnsta kosti fjórir létust í gær er fellibylurinn Niklas gekk yfir Þýskaland og Holland. Hefur lögregla staðfest að maður sem lést nálægt Magdeburg varð undir steypuvegg sem fauk í óveðrinu. Talið er að hann hafi látist samstundis.

Aðrir sem létust eru tveir menn sem unnu við vegaframkvæmdir. Þeir létust er tré féll á bíl þeirra í RheinlandPfalz í vestur Þýskalandi. 

Hefur fellibylurinn haft gífurleg áhrif á samgöngur í Evrópu en samkvæmt þýska veðurfræðingnum Peter Hartmann náði vindstyrkurinn upp í 44 metra á sekúndu. Sagði hann jafnframt að þetta væri einn mesti stormur sem orðið hefur í Þýskalandi síðustu árin. 

Hefur óveðrið einnig haft áhrif í Hollandi en þar hefur einn látist vegna þess. Talsmaður Schiphol flugvallarins í Amsterdam sagði að um 90 flugferðum hafi verið aflýst vegna veðurs. 

Var jafnframt mjög hvasst í Bretlandi og Belgíu, en þar rifnuðu tré upp með rótum og felldu ljósastaura. 

Slökkviliðsmenn fjarlægja tré sem féll í kjölfar Niklas í Hanover …
Slökkviliðsmenn fjarlægja tré sem féll í kjölfar Niklas í Hanover í gær. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert