Viðræðum haldið áfram í dag

AFP

Viðræður um kjarnorkuvopnaáætlun Írans verða teknar upp að nýju í dag og að sögn rússneskra og íranskra yfirvalda miðar viðræðunum áfram.

Utanríkisráðherra Rússlands Sergei Lavrov segir að samkomulag hafi náðst um stærstu atriðin á meðan vestrænir leiðtogar segja að enn eigi eftir að ræða ýmislegt. 

Hefur til að mynda utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna lýst því yfir að „nægur árangur“ hafi orðið til þess að framlengja viðræðurnar en þó eigi eftir að ræða „nokkur ágreiningsefni“. Átti viðræðunum að ljúka á miðnætti í gærkvöldi en hafa þær verið framlengdar. 

Ekki liggur fyrir hvaða ágreiningsefni búið er að leysa samkvæmt frétt BBC. 

Sagði Lavorv m.a. að viðræðunum muni líklega ljúka í dag í samtali við rússnesku fréttastofuna Tass. 

Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif var einnig jákvæður og sagði miklu hafi verið áorkað í viðræðunum.

„Ég vona að við getum klárað vinnuna á miðvikudaginn,“ sagði hann í gær. 

Samninganefndir frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Kína, Rússlandi, Þýskalandi og Íran taka þátt í viðræðunum. Er reynt að semja um að Íran muni ekki þróa kjarnorkuvopn. Íranar neita því að hafa slíkt í hyggju. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert