Bjuggu til bát úr plastflöskum

Fimm ungir Palestínumenn ákváðu að fyrir tæpu hálfu ári síðan að smíða sér bát til þess að geta veitt í matinn og siglt um fyrir utan Gasaströndina þar sem þeir eiga heima. Smíðin tók um fimm mánuði og í bátinn fór brotajárn sem þeir útveguðu sér og um eitt þúsund plastflöskur.

Fram kemur í frétt AFP að Palestínumenn geti aðeins siglt sex sjómílur frá landi án þess að ísraelski sjóherinn hafi afskipti af þeim en Gasaströndin hefur verið í herkví ísraelska hersins frá árinu 2006. Bahaa Obeid, einn skipasmiðanna sem er 25 ára, segir í samtali við AFP að hann og nokkrir vinir hans hafi viljað hafa eitthvað fyrir stafni og því tekið upp á því að smíða bátinn.

„Þetta tók sinn tíma því við höfum aðeins aðgang að rafmagni í sex klukkustundir á dag,“ segir hann ennfremur. Kostnaðurinn við smíðina nam sem samsvarar 500 dollurum en báturinn er fjögurra metra langur og tveggja metra breiður. „Við getum farið og veitt í matinn núna eða bara siglt um. Það er tilbreyting þó þetta sé kannski smávegis skrítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert