Hætti við heimsókn vegna útlendingahaturs

Forseti Suður-Afríku, Jacob Zuma, hefur hætt við heimsókn til Indónesíu vegna ört vaxandi útlendingahaturs í heimalandinu og ofbeldi gagnvart innflytjendum og öðrum útlendingum.

Fjölmargar árásir hafa verið gerðar á útlendinga í Suður-Afríku að undanförnu og hafa einhverjar þeirra verið mannskæðar. 

Yfir þrjátíu voru handteknir í Jóhannesarborg í nótt og í yfirlýsingu frá Zuma kemur fram að ekki sé hægt að réttlæta árásir á útlending með nokkru móti. Árásirnar brjóti gegn öllu sem þjóðin trúi á.

Útlendingahatur og ofbeldi gagnvart útlendingum hefur vaxið mjög undanfarnar vikur eftir árásir á útlendinga í hafnarborginni Durban fyrir nokkrum vikum. 

Flestir þeirra sem hafa orðið fyrir slíkum árásum eru flóttamenn og hælisleitendur sem hafa neyðst til þess að flýja heimalandið vegna stríðsátaka og ofsókna, að sögn yfirmanns flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna.

clr/bc/sms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert