Fann móður sína í vinnunni

Mæðgurnar voru alsælar með það að hafa fundið hvoraðra.
Mæðgurnar voru alsælar með það að hafa fundið hvoraðra. Skjáskot af WKBN

Tæplega fertug kona frá Ohio í Bandaríkjunum bjóst ekki við því að enda á sínum eigin vinnustað þegar hún hóf leit að móður sinni sem hún hafði aldrei kynnst.

La-Sonya Mitchell-Clark fékk nýlega í hendur upplýsingar um móður sína sem hafði gefið hana upp til ættleiðingar þegar hún fæddist. Hún komst að því að móðirin héti Francine Simmons, og þegar hún leitaði af henni á Facebook komst hún að því að þær ynnu hjá sama fyrirtækinu, InfoCision.

Hún þekkti konu að nafni Francine innan fyrirtækisins, og hafði strax samband við hana. Næsta dag fékk hún símtalið sem hún hafði beðið eftir.

„Ég held að ég sé dóttir þín,“ sagði Mitchell-Clark við móður sína, sem tók fréttunum fagnandi. Simmons segist alltaf hafa viljað ná sambandi við dóttur sína, en hún gaf hana frá sér eftir að hafa átt hana 15 ára gömul. „Ég er enn í áfalli,“ sagði Simmons í samtali við WKBN fréttastofuna. „Þetta er alveg magnað.“

Mæðgurnar búa aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá hvor annarri í Youngstown. Þá á Mitchell-Clark þrjár systur sem hún vissi ekki af og ein þeirra starfar einnig hjá InfoCision. 

Mitchell-Clark segir kjörforeldra sína hafa stutt hana dyggilega og hvatt hana til að finna móður sína. „Nú eigum við stærri fjölskyldu og getum öll verið saman,“ sagði Simmons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert