Skaut kærasta sinn sex sinnum

Shayna Hubers og Ryan Poston á meðan allt lék í …
Shayna Hubers og Ryan Poston á meðan allt lék í lyndi. Af Instagramsíðu Shayna Hubers

Bandarísk kona hefur verið fundin sek um morð, eftir að hafa skotið kærasta sinn til bana árið 2012. Yfirvöld í Kentucky segja hina 24 ára gömlu Shayna Hubers hafa skotið 29 ára gamla Ryan Poston sex sinnum á heimili hans eftir rifrildi.

Verjendur Hubers segja hana hins vegar hafa skotið hann í sjálfsvörn.

Kviðdómurinn var sammála um að Hubers ætti að vera dæmd í 40 ára fangelsi, en það er þó undir dómaranum komið hversu lengi hún mun þurfa að sitja inni. Lífstíðarfangelsi er möguleiki, en refsingin verður kveðin upp á næstunni.

Frænka Postons, Carissa Carlisle, bar vitni fyrir dómi, og sagði frænda sinn hafa verið að reyna að forðast ágreining við Hubers en þau höfðu verið sundur og saman um tíma.

„Hann sagði við mig: Þetta verður nálgunarbann á öðru stigi. Ég er ekki að grínast. Þú verður að tala við hana. Hún er búin að senda mér 75 skilaboð á síðasta klukkutímanum. Hún er búin að birtast fyrir framan íbúðina mína þrisvar sinnum og neitar að yfirgefa í hvert skipti,“ las Carlisle upp úr skilaboðum sem Poston sendi henni, kvöldið sem hann var myrtur.

Þá lögðu saksóknarar jafnframt fram skilaboð sem Hubers hafði sent vini sínum þar sem hún sagðist ætla að skjóta Poston til bana og láta það líta út fyrir að vera slys.

Að sögn stjúpföðurs Postons hafði hann verið kominn yfir Hubers og var farinn að hitta aðra konu. Sú heitir Audrey Bolte og var kjörin ungfrú Ohio árið 2012. Hann hafði boðið henni á stefnumót þann 12. október 2012, daginn sem Hubers myrti hann.

Stjúpfaðirinn sagði hann hins vegar hafa verið smeykan um að fara á stefnumótið þar sem Hubers væri stöðugt að fylgjast með honum.

Við krufningu kom í ljós að maðurinn hafði verið skotinn sex sinnum, meðal annars í höfuð, bringu og bak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert