Mótmælendur orðnir rólegri

Mótmælendur brutu rúður í verslunum og skemmdu lögreglubíla.
Mótmælendur brutu rúður í verslunum og skemmdu lögreglubíla. AFP

Mótmælin í Baltimore hafa tekið að róast en ástvinir Freddie Gray biðluðu til mótmælenda að hætta ofbeldinu. Gray lést fyrir viku síðan eftir að hafa hlotið áverka þegar hann var handtekinn af lögreglu.

Jarðaför Gray, sem lést 25 ára að aldri, verða á morgun en hann lést af völdum áverka sinna eftir að hafa skaddast á mænu á meðan hann var í haldi lögreglu.

Mótmælendur hafa fjölmennt á hverju kvöldi síðan Gray lést en hann er enn einn óvopnaði blökkumaðurinn sem lætur lífið af völdum lögreglu í Bandaríkjunum.

AFP-fréttaveitan greindi frá því að þingmaðurinn Elijah Cummings, sem situr á þingi fyrir hönd Baltimore-umdæmis, hafi sagt við fjölmiðla að hann sé mjög ánægður með það að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna fari nú yfir starfsemi lögreglunnar í Baltimore „frá a til ö“.

Frétt mbl.is: Hefði átt að hitta lækni strax

„Við verðum að taka þessa stofnun til hliðar og reyna að komast að því hverju þurfi að breyta og hvað sé gert vel,“ sagði Cummings við sjónvarpsstöðina CBS.

Þúsundir manna mættu í gær í mótmælagöngu vegna dauða Gray og fóru mótmælin friðsamlega fram í fyrstu. Á skömmum tíma breyttist það þó, þegar hluti af mótmælendunum færðu sig á stað nærri hafnarboltavelli Baltimore, Camden Yards, þar sem leikur Baltimore Orioles og Boston Red Sox fór fram.

Bað mótmælendur um að hætta ofbeldinu

Tvíburasystir Gray, Fredericka, bað mótmælendurna um að hætta ofbeldinu.

„Fjölskyldan mín vill segja: Gerið það, hættið þessu ofbeldi. Freddie hefði ekki viljað þetta,“ sagði hún en hún stóð við hlið borgarstjórans Stephanie Rawlings-Blake.

Borgarstjórinn sagðist hafa orðið fyrir verulegum vonbrigðum með ofbeldið sem hún klíndi á lítinn hóp æsingamanna.

Í myndbandsupptöku sjónvarpsstöðvar á svæðinu má sjá hvernig mótmælendahópurinn fór um kastandi umferðarkeilum, gosflöskum og ruslatunnum í lögreglumenn, áður en þeir hófu óvænt að brjóta rúður í verslunum, rændu varning og skemmdu lögreglubíla. Mótmælendur rifu einnig niður götuskilti ásamt því að kasta grjóthnullung í gegnum bílrúðu hjá einum ökumanni.

Á föstudag viðurkenndi lögreglan í Baltimore að koma hefði átt Freddie Gray strax undir læknishendur eftir að hann var handtekinn. Sex lögreglumönnum hefur verið vikið tímabundið úr starfi þar til rannsókn málsins lýkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert