Sænskar hetjur í New York

Sænskir lögreglumenn sem eru í fríi í New York eru óvænt orðnir hetjur á veraldarvefnum eftir að þeir stöðvuðu slagsmál í lest í borginni.

Samkvæmt Buzzfeed kallaði lestarstjórinn eftir aðstoð þegar slagsmál brutust út í lestinni. Svíarnir höfðu verið á leiðinni að sjá Les Misérables á Broadway en víluðu ekki fyrir sér að stíga inn í. Annar maðurinn var fljótur að róast niður og slepptu þeir honum í kjölfarið úr takinu sem þeir höfðu á honum. Hinn maðurinn lét ófriðlega og æpti meðal annars að hann gæti ekki andað. Sagðist hann einnig kenna til í handleggjunum og sést þá hvernig annar lögreglumaðurinn lagar grip sitt á manninum. Eins og sést í myndbandinu biðja þeir manninn ítrekað um að róa sig niður og spyrja hann hvort hann sé slasaður eftir að hann hættir að öskra. Hann svarar því neitandi.

Margur myndi ætla að hér væru venjuleg vinnubrögð lögreglumanna á ferðinni en ýmsir notendur veraldarvefsins segja myndbandið sýna glögglega það sem upp á vantar í bandarískri löggæslu þar sem mikið er um ofbeldi. Þykja viðbrögð þeirra það undraverð að þeir voru boðaðir á sérstakan fund með lögregluyfirvöldum New York borgar þar sem þau voru rædd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert