Aflýsa fjallgöngum á Everest

Björgunarþyrla sækir slasaðan fjallgöngumann á Everest-fjall.
Björgunarþyrla sækir slasaðan fjallgöngumann á Everest-fjall. AFP

Kínversk yfirvöld hafa aflýst öllum fjallgöngum í norðurhlíðum Everest-fjalls í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir Nepal á laugardag og snjóflóðsins sem hann olli í fjallinu. Fleiri en 400 fjallgöngumenn hafa yfirgefið svæðið og komið sér í skjól í Tíbet eftir hamfarirnar.

Átján manns fórust í snjóflóðinu sem féll við grunnbúðir fjallgöngumanna á fjallinu. Kínverskir ríkisfjölmiðlar segja að tuttugu manns til viðbótar hafi farist í fjallinu í Tíbet. Björgunarsveitarmenn á þyrlum björguðu um 150 fjallgöngumönnum sem hafa verið fastir í hlíðum fjallsins Nepalmegin.

Stjórnvöld í Nepal hafa enn ekki ákveðið hvort að fjallgöngum verði aflýst þar.

„Það er mögulegt að fjallgöngur haldi ekki áfram á þessu ári. Það hefur hins vegar engin formleg ákvörðun verið tekin,“ segir Tulsi Gautam, yfirmaður ferðamannaráðs Nepal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert