ESB áfram háð rússnesku gasi

AFP

Evrópusambandið verður áfram háð rússnesku gasi um ókomin ár að mati breska orkufyrirtækisins Centrica sem sérhæfir sig í dreifingu á rafmagni og gasi til heimila og fyrirtækja í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hugmyndir um að sambandinu takist að skipta gasi frá Rússlandi út fyrir aðra orkugjafa eru óraunhæfar í fyrirsjáanlegri framtíð.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en Evrópusambandið hefur lagt mikla áherslu á minnka vægi rússnesks gass innan ríkja þess síðan átökin í Úkraínu hófust. Meðal annars með auknum fjölda vindmylla. Haft er eftir Iain Conn, framkvæmdastjóra Centrica, að Rússland útvegaði sambandinu í dag um þriðjung þess gass sem ríki þess þyrftu á að halda. „Þú getur ekki skrúfað fyrir það svo auðveldlega án þess að það hafi afleiðingar.“

Conn bendir á að ef gripið yrði til refsiaðgerða gegn rússneskum gasfyrirtækjum yrðu dreifingarfyrirtæki innan Evrópusambandsins að taka mið af því. Rússlandi hafi reynst áreiðanlegur söluaðili gass í gegnum allt kalda stríðið og væri þess utan háð sölu þess til ríkja sambandsins. Rússar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þessara viðskipta fyrir þá sjálfa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert