Þjóðverjum fækkar næstu áratugi

Þjóðverjum mun fara fækkandi á næstu áratugum.
Þjóðverjum mun fara fækkandi á næstu áratugum. AFP

Nýjar mannfjöldaspár benda til þess að íbúar Þýskalands verði 10 milljónum færri 2060 en í dag. Gert er ráð fyrir að fjöldi innflytjenda í landinu muni ekki vaxa til mótvægis við minnkandi fæðingatíðni.

Þýska hagstofan spáir því að íbúar Þýskalands verði á bilinu 68-75 milljónir 2060, en þeir eru 81 milljón í dag. Gangi spáin eftir verður Þýskaland ekki lengur fjölmennasta ríki Evrópusambandsins, og færist aftur fyrir bæði Bretland og Frakkland.

Eldri spár gerðu ráð fyrir enn frekari fækkun íbúa, en dregið hefur úr henni vegna aukins fjölda innflytjenda í landinu. Á síðasta ári fluttu 500 þúsund fleiri íbúar til Þýskalands en úr landi, en fjölgunina má m.a. rekja til opnunar vinnumarkaðarins fyrir íbúa í austurhluta Evrópu.

Fæðingatíðni er óvíða jafn lág innan Evrópusambandsins og í Þýskalandi og hefur Angela Merkel kanslari varað við því að öldrun þjóðarinnar sé vandamál sem takast þarf á við.

Nýju spárnar gera ráð fyrir að fjöldi íbúa á vinnualdri muni dragast saman úr 49 milljónum í dag í 36 milljónir 2060. Þróunin gæti bæði haft áhrif á hagvöxt og fjármögnun heilbrigðis- og lífeyriskerfanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert