Þörf á 30.000 sérfræðingum

Franska sjónvarpsstöðin TV5Monde varð fyrir netárás fyrr í þessum mánuði. …
Franska sjónvarpsstöðin TV5Monde varð fyrir netárás fyrr í þessum mánuði. Þrjótarnir tóku m.a. yfir heimasíðu stöðvarinnar og samfélagsmiðlaaðganga. Þeir sem lýstu árásinni á hendur sér sögðust hafa tengsl við hryðjuverkasamtökin Ríki íslam. AFP

Sérfræðingar hafa varað við skorti á einstaklingum með sérþekkingu á sviði netöryggis. Mark Goodwin hjá Virgina Tech í Bandaríkjunum, segir að líklega séu þeir sem eru sannarlega hæfir til að takast á við sífjölgandi öryggisógnir innan við 1.000 á heimsvísu.

Goodwin, sem fer fyrir verkefni á vegum háskólans sem miðar að því að gera bragarbót á, segir að til að takast á við vandann þurfi 30.000 sérfræðinga til viðbótar.

„Við erum að horfa upp á netnjósnir og netskemmdarverk sem kalla á að við höfum yfir að ráða sérhæfðum einstaklingum til að takast á við ógnina,“ sagði Goodwin á ráðstefnu í Sádi Arabíu í dag.

Á sömu ráðstefnu sagði Saleh Ibrahim al-Motairi, framkvæmdastjóri nýrrar netöryggismiðstöðvar landsins, að nauðsynlegt væri að byggja innviði til að stuðla að aukinni getu til að takast á við netógnir.

Hann sagði mannauðinn númer eitt í þessu samhengi, en tæknina í öðru sæti.

Árið 2012 varð sádiarabíska olíufyrirtækið Aramco fyrir netárás, sem bandaríska leyniþjónustan rakti til Íran. Alvarlegum árásum af þessu tagi hefur farið fjölgandi síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert