Ekkert rými fyrir samkynhneigða

Forseti Kenía, Uhuru Kenyatta og varaforseti landsins William Ruto
Forseti Kenía, Uhuru Kenyatta og varaforseti landsins William Ruto AFP

Varaforseti Kenía, William Ruto, segir að það sé ekkert rými fyrir samkynhneigða í landinu. þetta kom fram í máli Ruto við messu í Naíróbí, höfuðborg landsins. Hatur á samkynhneigðum hefur farið ört vaxandi á stórum svæðum í Afríku og er samkynhneigð lögbrot í mörgum löndum, þar á meðal Keníu.

„Við munum ekki heimila samkynhneigð í þjóðfélagi okkar á sama tíma og hún ógnar trúarskoðunum okkar og menningu,“ sagði Ruto við fermingarmessu kristinna í Jesus Winner Ministry-kirkjunni í úthverfi höfuðborgarinnar. „Við stöndum með trúarleiðtogum og verjum trú okkar og hugmyndafræði,“ segir Ruto. „Það er ekkert rými fyrir samkynhneigð í þessu landi. Það get ég fullvissað ykkur um,“ bætti Ruto við.

Ummælin lét Ruto falla sama dag og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Keníu en hann hefur heitið því að þrýsta á stjórnvöld varðandi mannréttindi. Eins mun hann ræða öryggismál og hryðjuverkastarfsemi við ráðamenn í Keníu.

Ruto, sem er ákærður fyrir glæpi gagnvart mannkyninu af alþjóðaglæpadómstólnum í Haag, segir að ummæli sín eigi ekkert skylt við stjórnmál heldur siðgæði.

Í ríkjum Afríku þar sem íhaldssöm kristin og íslömsk gildi ráða ríkjum ræður hatur á samkynhneigð lofum og lögum. Má þar nefna lönd eins og Úganda þar sem reynt hefur verið að koma á dauðarefsingu fyrir samkynhneigð. Í 36 af 54 ríkjum Afríku er samkynhneigð ólögleg og má taka fólk af lífi í fjórum þeirra fyrir brot á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert