Best að vera móðir í Noregi

Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það er best að vera móðir í Noregi samkvæmt nýrri ársskýrslu Save the Children sem birt var í dag. Finnland er í öðru sæti en Ísland því þriðja.

Athygli vekur að Bandaríkin eru í 33 sæti og falla niður um tvö sæti á milli ára.

Versti staðurinn til þess að vera móðir er Sómalía en rétt fyrir ofan það er Kongó-lýðveldið og Miðafríkulýðveldið.

Þetta er í sextánda skiptið sem Save the Children rannsakar stöðu mæðra í heiminum. Skýrslan gefur 179 löndum einkunnir byggðar á heilsu mæðranna, menntun, tekjum og stöðu.

Líkurnar á því að deyja við barnsburð meðal bandarískra mæðra er einn á móti 1,800. Það er hæsta tíðnin meðal þróaðra landa. Bandarísk kona er rúmlega tíu sinnum líklegri til þess að deyja við barnsburð heldur en kona í Póllandi.  

Samkvæmt frétt AFP hafa Norðurlöndin alltaf náð fyrstu sætunum í skýrslunni. Eins og áður kom fram er nú best að vera móðir í Noregi en í fyrra var best að vera móðir í Finnlandi. 

Ástralía er eina landið utan við Evrópu sem nær á topp tíu listann og er í níunda sæti. 

Frakkland og Bretland eru í 23 og 24 sæti og Kanada í því tuttugasta.

Í þeim löndum sem ná topp tíu listanum mun ein af hverjum 290 mæðrum missa barn sitt áður en það verður fimm ára. Tíðnin er þó allt önnur í botni listans en í tíu neðstu löndunum er tíðnin ein á móti átta. Löndin tíu sem verst er að vera móðir eru öll í Afríku, sunnan við Sahara eyðimörkina. 

Save the Children skoðaði einnig dánartíðni ungbarna í 24 ríkustu höfuðborgum heims. Af þeim er dánartíðni ungbarna hæst í höfuðborg Bandaríkjanna Washington D.C. en tíðnin þar er 7,9 andlát á móti 1,000. 

Tíðnin í Stokkhólmi og Osló var hinsvegar við eða undir 2 andlát á móti 1,000. 

Framkvæmdarstjóri Save the Children, Carolyn Miles sagði í dag að skýrslan sýni að hamingjusamar mæður séu ekki aðeins í ríkum löndum. Lagði hún áherslu á að forgangsröðunin þurfi að vera rétt. Nefndi hún Noreg sem dæmi. 

„Í Noregi er auður til staðar en þeir fjárfesta einnig í mæðrum og börnum og það er forgangsatriði,“ sagði Miles. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert