Leigubílstjóri í lífstíðarfangelsi

Sardar er leigubílstjóri í London.
Sardar er leigubílstjóri í London. AFP

Breskur leigubílstjóri hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á bandarískum hermanni í Írak árið 2007. 

Hinn 38 ára gamli Anis Sardar, sem er frá Wembley, bjó til sprengjur og skipulagði að drepa Bandaríkjamenn sem börðust í landinu. Ein þessara sprengja varð til þess að 34 ára gamli liðsforinginn Randy Johnson lést.

Sardar sýndi engin svipbrigði þegar dómarinn kvað upp dóminn yfir honum. Hann mun að minnsta kosti þurfa að sitja inni í 38 ár.

Í réttarhöldunum sagði Sardar kviðdómnum að hann hefði tekið þátt í uppreisn í Írak til að vernda aðra súnní múslima eins og hann sjálfan fyrir shía vígamönnum. Aðgerðir Sardar snerust þó ekki einungis að shía múslimum heldur einnig Bandaríkjamönnum.

Í dómnum kom fram að Johnson hafi verið fjölskyldumaður og átt tvö börn, og hann hafi haft mikla ástríðu fyrir að leiða herlið sitt. Það hafi því verið sorgleg kaldhæðni örlaganna þegar skriðdreki herliðsins keyrði yfir sprengjuna að það hafi verið Johnson sem lést.

Þá sagði dómari að Sardar einn væri ábyrgur á dauða Johnsons og þar af leiðandi yrði hann að gjalda fyrir það.

Þá kom fram að dómurinn yfir Sardar sannaði að landamæri væru engin hindrun fyrir því að sakfella hryðjuverkamenn í Bretlandi fyrir glæpi sem þeir hefðu framið hvar sem er í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert