Morð veldur ólgu í Gana

Einn hefur verið handtekinn í Gana í tengslum við árás á einn leiðtoga stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins. Sýru var skvett á manninn sem lést af sárum sínum.

Talsmaður lögreglu sagði að leitað væri að öðrum einstakling í tengslum við árásina.

Adam Mahama var formaður Nýja ættjarðarflokksins (NPP) í Efra-Austurhéraði. Tveir menn réðust á Mahama á miðvikudag og hann lést á fimmtudagsmorgun. Áður en hann dó, hafði Mahama gagnrýnt formann NPP og framkvæmdastjóra opinberlega.

Mahama hélt því fram að Paul Afoko og Kwabena Agyepong hefðu skipulagt fund í Efra-Austurhéraði án hans vitneskju. Reiðir flokksmenn trufluðu fundinn og ráku formanninn og framkvæmdastjórann á brott.

Morðið hefur valdið talsverðri ólgu í Gana og verið fordæmt af stjórnmálamönnum allra flokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert