Fá ekki að mæta í jarðarfarir ættingja

AFP

Yfirvöld í Nepal hafa upplýst um að nepalskir verkamenn sem vinna við að reisa mannvirki í Katar fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022, fá ekki að fara heim til Nepal til þess að fara í jarðarfarir ættingja sinna sem létust í jarðskjálftum fyrir örfáum vikum.

Um 400.000 nepalskir verkamenn eru að störfum í Katar. Jarðskjálftinn í heimalandi þeirra hefur leitt til þess að 1,7 milljónir barna eru í mikilli neyð að sögn UNICEF.

Ríkisstjórnin í Katmandu hefur nú gagnrýnt FIFA og vill að knattspyrnusambandið setji pressu á yfirvöld í Katar. „Eftir jarðskjálftann þann 25. apríl báðum við öll fyrirtæki í Katar um að leyfa nepölskum starfsmönnum að koma heim og borga fyrir það kostnaðinn. Einhverjir hafa fengið slíkt leyfi en þeir sem vinna við að reisa mannvirkin fyrir HM fá ekki að fara heim,“ segir Tek Bahdar Gurung, atvinnumálaráðherra í Nepal í samtali við The Guardian.

Hann telur að ekkert muni gerast fyrr en FIFA beiti sér í málinu. „Þessir verkamenn hafa misst ættingja sína og upplifa erfiða tíma í Katar. Þetta eykur á vanlíðan þeirra,“ bætir Gurung við.

Yfirvöld í Katar hafa verið oft verið sökuð um mannréttindabrot, sér í lagi vegna framkvæmdanna við mannvirkin. Er aðbúnaður starfsmanna ekki talinn fullnægja eðlilegum kröfum. Þá var fréttamaður BBC handtekinn í vikunni þegar hann vann að frétt sem átti að fjalla um innvið samfélagsins í sambandi við heimsmeistarakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert