Hermaður skaut félaga sína

Lögreglumaður að störfum í Túnis. Mynd úr safni.
Lögreglumaður að störfum í Túnis. Mynd úr safni. AFP

Túniskur hermaður var skotinn til bana eftir að hann hóf skothríð á aðra hermenn í herstöð í Túnis. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins segir að nokkrir hermenn hefðu særst í árásinni.

Hann segir að búið sé að ná tökum á ástandinu en gaf ekki upp hvort fleiri hefðu látist. 

Túniskar öryggissveitir hafa verið með mikinn viðbúnað í landinu frá því í mars sl. þegar íslamskir öfgamenn gerðu árás á Bardo-safnið í höfuðborginni með þeim afleiðingum að 21 ferðamaður lést. 

Árásin í dag átti sér stað í herstöð sem er skammt frá safninu og þinghúsinu. Skóli í nágrenninu var rýmdur vegna árásarinnar.

Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir ekki vitað hvað hermanninum gekk til. Hann tók fram að stjórnvöld líti ekki á árásina sem hryðjuverk. Hann segir að engin skothríð hafi átt sér stað fyrir utan herstöðina. 

Hermennirnir sem særðust hafa verið fluttir á hersjúkrahús. 

Reuters-fréttastofan segir að einn hermaður hafi látist, en þetta hefur ekki fengist staðfest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert