Vopnin brýnd í Evrópu á ný

Rússar ráða yfir nú rúmlega 15.000 skriðdrekum. Stjórnvöld í Washington …
Rússar ráða yfir nú rúmlega 15.000 skriðdrekum. Stjórnvöld í Washington hafa sent hergögn til Eystrasaltsríkjanna síðustu mánuði, bandarískur Abrams-skriðdreki sést hér á hafnarbakkanum í Riga, höfuðborg Lettlands, í mars. AFP

Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu, NATO, hafa frá 1990 minnkað framlög til landvarna um að meðaltali 20%. Við lok kalda stríðsins fyrir aldarfjórðungi álitu margir að nú gætu menn andað léttar, líkurnar á hernaðarátökum væru úr sögunni. Rússland væri að verða friðsamt lýðræðisríki. En Rússland er annað mesta kjarnorkuveldi heims, í fastahernum eru nær 800 þúsund manns og um 2,5 milljónir manna í varaliðinu. Síðustu árin hafa Rússar sýnt að þeir hika ekki við að beita þessu hervaldi gegn minni grannþjóðum þegar þeim sýnist svo.

Úkraínska þingið ákvað í vikunni að öllu hernaðarsamstarfi við Rússa yrði slitið. Úkraínumenn segjast nú hafa sannanir fyrir því að rússneskir hermenn hafi tekið þátt í hernaði með aðskilnaðarsinnum. Þeir hafi stundað spellvirki, skipulagt fyrirsátir, lagt jarðsprengjur og komið fyrir sprengjum sem beinst hafi gegn óbreyttum borgurum. Rússar segja á móti að um sé að ræða hermenn í leyfi sem hafi gerst sjálfboðaliðar í herjum aðskilnaðarsinna.

Pólskir þingmenn efndu nýlega til eigin heræfinga og stjórnvöld í Litháen hafa dreift út leiðbeiningum til borgaranna um viðbrögð ef gerð verði innrás. Hinir hlutlausu Svíar stórauka nú framlög til varnarmála af ótta við Rússa. Og Finnar, sem ekki eru í NATO frekar en Svíar og forðast ávallt að styggja Rússa, hafa sent um 900 þúsund manns í varaliði hersins bréf þar sem útskýrt er hverjar skyldur þeirra séu ef „hættuástand“ skapist. Í sjónvarpsauglýsingu eru varaliðar minntir á að herskylda sé „hornsteinn varna Finnlands“.

Að sjálfsögðu segja ráðamenn í Helsinki að um sé að ræða lið í áætlunum sem gerðar hafi verið fyrir nokkrum árum og alls ekki sé um að ræða nein „skilaboð til Rússa“. En fyrrverandi efnahagsráðgjafi Vladímírs Pútíns, Andrei Illaríonov, fullyrðir að rússneski forsetinn álíti að hlutar af Finnlandi ættu að réttu lagi að vera undir stjórn Rússlands.

Átökin í Úkraínu eru viðvörun sem hefur dugað mörgum ráðamönnum NATO til að endurskoða hug sinn. Samþykkt var á NATO-fundi í Wales í fyrra að auka á ný framlög til varnarmála og sum ríkin eru þegar byrjuð á því, þrátt fyrir efnahagskreppu sem víða herjar. 2014 höfðu aðeins þrjú NATO-ríki staðið við fyrirheit um að verja minnst 2% af landsframleiðslu til varnarmála, víða var hlutfallið reyndar mun lægra.

„Litlu, grænu karlarnir“

Enn vantar mikið upp á að 2% markinu verði náð. Rússar hafa á hinn bóginn stóraukið hernaðarframlög sín síðustu árin og ljóst að ráðamenn í Kreml munu draga sínar ályktanir ef ekki tekst samstaða í NATO um að styrkja varnir aðildarlandanna. Þá er ekki síður mikilvægt að fylgjast með því hvernig hálfgerðum neyðarópum NATO-ríkjanna á vesturjaðri Rússlands verður svarað. Eistlendingar, Lettar og Litháar vilja að nokkur herafli frá öðrum NATO-löndum verði að staðaldri látinn vera með bækistöðvar í löndum þeirra. Öflug Evrópuríki höfnuðu óskinni, sögðu að þannig væri verið að ögra Rússum um of.

En Eystrasaltsþjóðirnar þrjár efla nú varnir sínar eftir bestu getu. Þessar grannþjóðir Rússa vilja sýna þeim að „litlu grænu karlarnir“, óeinkennisklæddir hermenn úr röðum Rússa, geti ekki valtað yfir þær eins og úkraínsku hermennina á Krímskaga í fyrra. Augljóst er að smáþjóðirnar þrjár hafa enga burði til að verjast til langframa árásum næstmesta herveldis heims. En markmiðið er að halda svo lengi út að Atlantshafsbandalagið geti sent liðsauka á vettvang áður en lokið hefur verið við að hernema löndin.

Flugherir NATO-landanna halda uppi eftirliti í loftrými Eystrasaltslandanna. Nokkur hundruð bandarískir hermenn hafa einnig í hálft annað ár tekið þátt í æfingum með hermönnum Eystrasaltsríkjanna, stundum hafa bandarískir skriðdrekar verið í nokkurra tuga km fjarlægð frá rússnesku landamærunum. Bandarískir hermenn hafa einnig þjálfað hermenn í Póllandi, Úkraínu og Georgíu.

Allir grannar Rússa eru mjög á varðbergi vegna stöðugra ógnana og ögrana Rússa. En Lettar og Eistlendingar hafa ekki síst áhyggjur af fjölmennum þjóðarbrotum Rússa í löndum sínum. Landamæraborgin Narva í austurhluta Eistlands er nánast alveg byggð rússneskumælandi fólki. Fátt bendir til þess núna að jarðvegur sé þar fyrir aðskilnaðarsinna. En munu útsendarar Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta ef til vill efna til óeirða sem hann mun síðan nota sem átyllu til að gera innrás?

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert