Bregðast við bráðum smjörskorti

Smjör drýpur ekki af hverju strái í Japan þessa dagana.
Smjör drýpur ekki af hverju strái í Japan þessa dagana. Þorkell Þorkelsson

Alvarlegur smjörskortur er í uppsiglingu í Japan og hafa þarlend yfirvöld lagt drög að neyðarinnflutningi á smjöri. Samtök mjólkurbænda áætla að eftirspurn muni nema um 7.000 tonnum meira en það sem hægt er að bjóða fram.

Skortur varð einnig skömmu fyrir jólin í fyrra og var gripið til skammtana á smjöri vegna hans. Ástæðan fyrir skortinum var sú að mjólkurkýr voru uppgefnar eftir mikla sumarhita sem gerði í Japan í fyrra og mjólkuðu því minna en vanalega. Mjólkurbændur settu mjólk í forgang og því var minna til af smjöri.

Landbúnaðarráðherra landsins tilkynnti í dag að flutt yrði nægilegt magn af smjöri til að mæta eftirspurn. Alls voru 10.000 tonn flutt inn í fyrra til að bregðast við skortinum en það var í fyrsta skipti í áraraðir sem japönsk stjórnvöld höfðu þurft að grípa til þess að flytja inn mjólkurvörur.

Fyrri frétt mbl.is: Eitt smjörstykki á mann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert