Evrópa getur gert meira

AFP

Evrópa verður að veita flóttafólki á Miðjarðarhafi meiri aðstoð, segir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, en hann er á leið til Brussel. Fyrirhugaðar flotaaðgerðir Evrópusambandsins bíða nú samþykkis öryggisráðs SÞ.

Ban segir að Evrópa geti veitt frekari aðstoð og hann hvetur til þess að aukinn kraftur verði settur í leitar og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Hann hvetur leiðtoga ríkja Evrópu til þess að veita þessu málefni meiri athygli og að skoða þurfi rót vandans í heimalandi flóttamannanna enn frekar. 

„Án samúðar þá getið þið ekki gert þetta. Þetta snýst fyrst og fremst um að gera okkar besta til þess að bjarga mannlífum,“ sagði Ban á blaðamannafundi með forsætisráðherra Írlands,  Enda Kenny, í Dublin í morgun.

Ráðherrar ríkja ESB samþykktu í síðustu hernaðaráætlun á Miðjarðarhafi gagnvart smyglurum en ekki hefur verið samþykkt af SÞ að ríkin fái heimild til þess að skjóta niður smyglarabáta í landhelgi Líbíu.

Gert er ráð fyrir því að aðgerðirnar hefjist í júní. Senda á herskip og eftirlitsflugvélar að strönd Líbíu og hugsanlegt er að skipunum verði beitt til að eyðileggja báta smyglaranna, en fyrst þarf þó öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að samþykkja hernaðinn.

Það sem af er ári hafa um 1770 flóttamenn farist á ferðalaginu yfir Miðjarðarhaf sem er þrjátíu sinnum fleiri en á sama tímabili í fyrra. 

Í síðustu viku sótti Ban Víetnam heim og hvatti til þess að flóttamannavandinn í Suðaustur-Asíu yrði settur í forgang hjá ríkjum á svæðinu en þar hefur flóttamannastraumurinn stóraukist þar sem bæði landlausir Rohingya-múslímar hafa flúið frá Myanmar (Búrma) og fátækt hefur hrakið marga íbúa Bangladess á flótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert