Fundu heila úti á götu

Talið er að heilarnir hafi verið úr hundum eða sauðfé.
Talið er að heilarnir hafi verið úr hundum eða sauðfé. mbl.isRax

Níu heilar fundust á götu í bæ í norðurhluta New York í síðustu viku. Ekki er þó talið að um glæpsamlegt athæfi hafi verið að ræða heldur hafi heilarnir verið hluti af safni fyrir kennslu eða rannsóknir.

Íbúar í Governeur í New York fundu heilana nærri lestarteinum á miðvikudag og létu lögregluna vita. Dýralæknir í bænum komst að þeirri niðurstöðu að einn heilinn í það minnsta hafi verið fjarlægður á fagmannlegan hátt og geymdur í formaldehýði. Talið er að líffærin séu úr hundum eða kindum.

Í frétt AP-fréttastofunnar kemur fram að óhöpp með varðveitta heila séu ekki óalgeng. Þannig hafi Háskólinn í Austin í Texas komist að því í fyrra að á annan tug heila sem geymdir voru í krukkum með formaldehýði sem tilkynnt var að hefðu horfið hafi í raun verið fargað árið 2002. Heilarnir höfðu verið gefnir til kennslu og rannsókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert